Hvað er æfingaakstur?
Nú mega allir sem vilja byrja ökunámið 16 ára og fara síðan í æfingaakstur með foreldri eða eldra systkini á námstímanum. Fyrst þarf viðkomandi að fara í tíma til ökukennara og þegar hann hefur metið nemandann hæfan til að geta ekið einn og hjálparlaust gefur hann út vottorð sem síðan er fyllt út af verðandi leiðbeinanda. Það er síðan sótt um æfingaleyfi á island.is Merkið ÆFINGAAKSTUR fær nemandinn annað hvort frá mér eða ökuskóla 1.
Æfingaakstur – nokkrir minnispunktar fyrir leiðbeinendur og nemendur.
Nokkrar staðreyndir. Nemendur:
- aka yfirleitt of hratt, sérstaklega í beygjum
- draga yfirleitt frekar seint úr hraða
- aka yfirleitt of nálægt næsta bíl á undan
- horfa yfirleitt of stutt fram fyrir bílinn og í kringum sig
- eiga oft erfitt með að skipta um akreinar og fara inn og um hringtorg.
Leiðbeinandinn hefur meiri reynslu, en nemandinn hefur stundum meiri þekkingu. Þarf að vera samvinna á milli en leiðbeinandinn stjórnar.
Hvað getur leiðbeinandinn gert ef eitthvað kemur upp á? Hann getur:
- drepið á bílnum
- tekið í handbremsuna
- tekið úr gír
- tekið í stýrið
Veljið léttar leiðir til að byrja með. Úthverfi borgarinnar eru yfirleitt þægilegri en miðbærinn. Útbúðu hring áður en lagt er af stað í fyrstu ferðirnar og reyndu að fara “réttsælis”, því þá eru “auðveldari” hægri beygjur frekar en vinstri beygjur.
Reynið að æfa eftirfarandi:
- að leggja í stæði (mismunandi tegundir)
- að taka af stað í brekku, en ekki í fyrsta tímanum
Umhirða bílsins er mikilvægur liður t.d. að setja eldsneyti á tankinn, mæla loft í dekkjum, skipta um dekk, fara með bílinn í smurningu og þrífa hann.
Gátlisti leiðbeinandans:
- gott er að byrja í rólegri umferð og færa sig smátt og smátt í erfiðari aðstæður. Ekki bakka út úr stæðinu heima í fyrsta tímanum. Gerðu það fyrir nemann.
- markmið að æfa nemann við eins fjölbreyttar aðstæður og hægt er
- miða hraðann alltaf við aðstæður – ekki fara yfir leyfðan hámarkshraða. Vegna reynsluleysis getur hann lent í vandræðum og ef hann hefur vanist því að aka hratt í æfingaakstri, mun prófdómarinn vera strangur við hann.
- þjálfa líka í myrkri og rigningu
- þjálfa þegar færi er erfitt vegna hálku eða snjóa. En mikilvægt er að meta aðstæður. Ekki aka í mikilli ófærð eða fljúgandi hálku.
- gott er að hafa aukabaksýnisspegil til að fylgjast með umferð fyrir aftan og augnspegil í hægra neðra horni framrúðu til að fylgjast með nema
Hafðu samband við mig ef þið viljið fá nánari upplýsingar.