Þú ert eflaust að velta fyrir þér: Hvað er Ökuskóli? Og hvernig fer hann fram?
Hér má finna nauðsynlegar upplýsingar um Ökuskóla 1 og 2.
Bóklegt nám eru 25 kennslustundir sem skiptast í þrjá hluta; Ö1 fyrsti hluti, Ö2 annar hluti og Ö3 þriðji hluti.
Ö1 þarf að taka um það leyti sem byrjað er á verklegu kennslunni. Það gefur betri sýn á það sem er að gerast fyrstu tímana í verklega hlutanum eins og t.d. um bifreiðina, umferðarmerkin, umferðarlög, umferðarhegðun o.s.frv.
Ö1 þarf að vera búið að taka áður en æfingaakstur hefst.
Huga skal að Ö2 um það leyti sem 2 mánuðir eru í 17 ára afmælisdaginn. Eftir ökuskóla 2 er farið í Ö3, sem er í boði í Reykjavík alla virka daga ársins.
Nám í ökugerði, ökuskóli 3, má ekki fara fram fyrr en ökunemi hefur lokið fyrsta og öðrum hluta bóklegs náms (Ö1 og Ö2) og sem nemur 12 verklegum kennslustundum hjá ökukennara hið minnsta.
Þá er hægt að fara í bóklega prófið strax þegar Ö3 er lokið.
Í ökuskólanum er farið yfir öll helstu atriði varðandi bifreið og þátttöku í umferðinni. Stuðst er við bókina Akstur og umferð eftir Arnald Árnason. Einnig eru umræður og sýnd myndbönd um ýmislegt tengt umferðinni.
Í fyrsta hlutanum er til að mynda farið yfir:
- ökunám og ökuskírteini
- bifreiðina
- umferðarheildina
- umferðarlög
- umferðarmerki
- umferðarhegðun
- almenn viðhorf í umferðinni
Í öðrum hlutanum er til að mynda farið yfir:
- upprifjun úr Ö1
- umferðarsálfræði
- áhættuþætti umferðar
- viðhorf og ábyrgð ökumanns
- skyndihjálp
- undirbúningur undir bóklega prófið
- aðstoðað við útfyllingu umsóknar um ökuskírteini
Í þriðja hlutanum er farið í stjórn bifreiðar við mismunadi aðstæður og öryggisatriði í akstri. Ö3 er bæði verklegt og bóklegt og fer fram í ökugerði við Borgatún 41, Reykjavík.